Veggjalúsin....Grein mín í 24 stundum 12.nóv 2007

 Hér birtist grein mín í heild sinni, sem birtist í 24 stundum 12.nóv 2007. En þar féllu niður heimildir.

Upplýsingar og fróðleikur um meindýr og varnir  Veggjalús (Cimex lectularius)  Sníkjudýraættin Cimicidae telur rúmlega 30 tegundir sem finnast um allan heim og lifa sem sníkjudýr og blóðsugur á spendýrum. Einna skæðust þeirra er veggjalúsin (Cimex Lectularius). Veggjalús er sníkjudýr sem lifir á blóði og tekur sér venjulega bólfestu í rúmum manna og nærist á blóði þeirra á nóttinni. Hún hefur hægt um sig á daginn en getur þó verið á ferðinni í dagsbirtu. Hún finnur hitann frá fólki sem leggst í rúmið sé felustaður hennar þar og getur því hæglega stungið fólk á daginn líka. Hún sést vel og fólk ætti að reyna að ná sýnishorni af henni og fá það staðfest hjá t.d. Náttúrufræðistofnun eða Náttúrufræðistofu Kópavogs að um veggjalús sé að ræða áður en kallað er á meindýraeyði. Verði menn fyrir skordýrabiti er best að koma fyrir skordýragildrum svo hægt sé að greina dýrið. Veggjalýs þurfa raka og hita til að geta lifað og dýr eða menn til að nærast á. Mjög gott ráð er að ná herbergishita niður í  10-11 gráður °C. Þá hægir á allri starfsemi veggjalúsarinnar. Talið er að lúsin hafi borist hingað til lands með norskum hvalföngurum á seinnihluta 18. aldar og breiðst síðan út um landið á næstu árum og áratugum. Hér á landi var henni útrýmt fyrir nokkrum áratugum en skýtur þó upp kollinum öðru hvoru. Ekki er ólíklegt að hún berist hingað með ferðamönnum og verði algengari  vegna aukningar á ferðamönnum til landsins en vart hefur orðið  greinilegrar aukningar á tilfellum undanfarin ár. Íslendingar sem ferðast til útlanda geta borið þessa gesti með sér til landsins en vegna hreinlætis og góðs húsakosts á Íslandi er ekki mikil hætta á að hún nái að dreifa sér að ráði á ný. Þegar veggjalús hefur greinst er alltaf um einangruð tilfelli að ræða. Veggjalúsin er 4-5 mm löng. Hún er glær, stundum brúnleit, og verður rauð eftir að hafa sogið blóð úr fórnarlambi. Hún er vængjalaus og flöt og búkurinn hárlaus. Veggjalúsin byrjar líf sitt sem egg sem breytist í lirfu sem verður að fullvöxnu dýri. Eggin eru hvít u.þ.b. 1 mm löng. Kvendýrið verpir 1-5 eggjum á dag en hún verpir u.þ.b. 200 eggjum á lífstíma sínum. Egg klekjast út á 6 -17 dögum við 21-28 stiga hita en eru lengur að klekjast út á svalari stöðum. Fórnarlömb veggjalúsarinnar eru dýr með heitt blóð. Veggjalúsin felur sig í áklæði stóla, á  bak við myndir, undir rúmum, í rúmdýnum og veggfóðri og undir dyra- og gluggapóstum. Hún getur verið án fæðu í allt að 12 mánuði. Ummerki eftir veggjalús eru auðséð en hún kann sér ekki hóf og sýgur blóð úr fórnarlambinu þar til hún er bara bókstaflega að springa. Þá drattast hún af stað og er þá alltaf blóðdropi eða blóðrák eftir hana í laki eða á dýnu. Ekki hefur tekist að sanna að hún beri sjúkdóma á milli fólks eða dýra. Nokkrar aðferðir eru til að losna við veggjalúsina og verða þær nefndar hér: Það er best að byrja á að setja nýjan ryksugupoka í öfluga ryksugu og ryksuga með fram öllum gólflistum, alla veggi, loft, ljós, gardínur, rúm, dýnur, húsgögn, bækur og föt. Þá er nauðsynlegt að taka gólflista frá og ryksuga listana sjálfa og undan þeim.  Þá er að er komið að því að úða eitri í rúm og rúmgrindur, með fram öllum veggjum, á loft og gluggakistur. Um 8 klst þurfa að líða áður en hægt er að sofa í herberginu. Þá þarf að ryksuga og eitra allt aftur og er þá trúlega búið að komast í veg fyrir veggjalúsina. Það getur stundum tekið nokkurn tíma að losna við veggjalús það fer auðvitað eftir aðstæðum og best er að láta fagmenn sjá um það. Ekki er óalgengt að eitra þurfi oftar en einu sinni í slæmum tilfellum. Áratugum saman hafa skordýravarnarefni verið notuð með góðum árangri  til að útrýma veggjalús. Til eru sérstök efni sem hafa eingöngu verið þróuð í baráttunni við veggjalýs og hafa efni sem menn nota  hér á landi í dag reynst vel. Þegar úðað er fyrir veggjalús þarf að úða veggi, gólf, loft, glugga, hurðir, húsgögn, rúmföt og undir rúm og rúmgafla þannig að í rýminu verði mettað ský varnarefnis.Það er nóg að þvo sængurföt og sængur sér í lagi ef í þeim eru fuglafiður. Það þarf að gegnbleyta dýnur, fjarlægja þær úr rúmum og úða rúmbotna. Rúmföt, gardínur og rúmteppi þarf að þvo eða hreinsa eftir að búið er að úða. Oftast nær þarf ekki að henda rúmum eða húsgögnum en það kemur fyrir að það þurfi að henda dýnum t.d. ef þær eru lokaðar og ekki hægt að úða inn í þær. Dýnur skal úða fínlega og viðra síðan á svölum eða úti í garði.  Úðunarefnin, sem duga á veggjalýs hafa meindýraeyðar einir yfir að ráða svo og kunnáttu til að til að nota þau.Úðunarefnið sem notað er eyðir ekki eggjum veggjalúsarinnar en grípur inn í ferlið þegar lúsin skríður af stað úr egginu. Því getur þetta ferli tekið nokkurn tíma en er mjög árangursríkt og drepur lúsina. Önnur aðferð sem hefur verið notuð hér á landi og sýnd m.a. nýlega í sjónvarpsþætti er hin svo kallaða sænska leið. Svíar leyfa ekki innflutning á skordýraeitri og hafa því verið að þróa aðra aðferð með kolsýru. Það er skýringin á því að rúmum, dýnum og húsgögnum er hent því ekki er hægt að frysta þessa hluti með tækinu sem notað er nema rétt yfirborðið. Svíar tala um að það sé um  60 – 70 % árangur með þessari aðferð. Þá er oft að sýkt búslóð er sett í frostgám eða klefa og höfð í frosti til að drepa dýrin og eggin. Þegar búslóðin er síðan tekin úr frostinu er hún úðuð með skordýraeitri til öryggis. Fólk sem fær sér rúm eða dýnur ætti að spyrja seljandann hvort þær séu notaðar en sum fyrirtæki hafa auglýst að fólk geti skilað rúmum eftir viku ef þeim líkar ekki rúmin. Þar gæti  því verið um smitleið milli heimila að ræða. Fólk sem þarf að fá meindýraeyði skal óska eftir að fá að sjá starfsskírteini gefið út af Umhverfisstofnun og athuga hvort meindýraeyðirinn hafi starfsleyfi frá viðkomandi sveitarfélagi. Það er nauðsynlegt að óska eftir nótu fyrir þjónustu meindýraeyða svo hægt sé að hafa samband við hann ef með þarf.Ef viðkomandi er félagi í Félagi Meindýraeyða  þá er fagmaður á ferð. 

Lesendum 24 stunda er velkomið að senda fyrirspurn á netfangið hér að neðan:

gudmunduroli@simnet.is

  Heimildir:  Upplýsingar og fróðleikur um Meindýr og Varnir,  2004

                   

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðmundur Óli Scheving

Höfundur

Guðmundur Óli Scheving
Guðmundur Óli Scheving

Mikill áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélgagsmál. 

Meindýraeyðir

Sími: 857 7200    Þú hringir ef þig vantar aðstoð !

Er með bloggsíðu : http://blogg.visir.is/gudmunduroli

 Netfang : gudmunduroli@simnet.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 84478

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband